13.11.2007 | 08:59
Busy busy… heimsókn Thelmu, ferðalög, skemmtigarður, dýragarður og Beyoncé
Síðustu vikur hafa verið ansi strembnar sem kannski skýrir skort á bloggi frá mér. Hins vegar hef ég í huga að bæta ykkur það nú með gríðargóðu og ítarlegu bloggi á því sem hefur verið spennandi í lífi mínu uppá síðkastið.
NanjingHópur af sniðugu fólki ákvað að fara einn laugardagsmorguninn að fara niður á lestarstöð og hoppa upp í næstu lest og sjá hvar við myndum enda og hugsanlega bara gista í eina eða tvær nætur. Við fórum niður á lestarstöð með nesti og nýja skó og keyptum miða til Nanjing þar sem sú lest var að fara eftir 20 mínútur og tók ferðin rétt um 2 tíma. Þegar líða fór á kvöldið var labbað inn á næsta hótel í Nanjing og bókað herbergi. Þetta var svona eins konar bakpoka-helgarferð nema bara að við vorum svo sniðugar að skella okkur bara á næsta 5 stjörnu hótel í dekur og til að komast í bað og haga okkur eins og fátæku námsmennirnir sem við erum, enda kostaði nóttin ekki nema rúmlega tvöþúsund kjall á mann.
Nú Nanjing er fyrsta höfuðborg Alþýðulýðveldisins Kína enda var mikið að skoða þarna. Við sáum forsetahöllina, musteri Konfúcíusar, fórum í risa risa risa stóran garð með fullt af shitti eins og musterum, turnum, grafhýsum og fleira.
Málið er bara að nú höfum við ferðast eitthvað um Kína og það er bara allt eins einhvernvegin. Það eina sem er misjafnt er hversu stórar borgirnar eru og hversu mikla enskukunnáttu er finnanleg á svæðinu. En annars eru flest musteri eins, byggingar sem tilheyrðu keisarafjölskyldunni eru öll eins uppsett og röðun húsa alltaf eins. Til að mynda er að finna ein 40 Konfúcíusarmusteri í Kína.
Dýragarður:Við fórum í dýragarð hér í Shanghai sem státar sig af því að vera Wild life park. Jú voða spennandi og þegar við komum í garðinn kemur nú í ljós að um er að ræða hálf villtan garð. Það var svona rúta sem rúntar með mann í gegn um svæði þar sem dýrin hlaupa villt en restin af garðinum er bara venjulegur dýragarður. Jæja við þrykkjum myndavélunum um hálsinn og komum okkur fyrir í rútu. Tilbúin að sjá dýrin sem aldrei fyrr og spennan magnast.
Þvílík vonbrigði sem þetta var! byrjaði samt vel því rútan keyrði inn um eitt hlið sem lokaðist og þá vorum við föst milli tveggja hliða eins og í myndinni um Júragarðinn. Við voða spennt keyrum inn á gresjuna. Það er skemmst frá því að segja að rútan keyrði langt yfir leyfilegan hámarkshraða í gegnum svæði sem voru pínkulítil. Það var eitt svæði fyrir gresjudýrin en samt var helmingurinn af þeim dýrum i básum eða bundin niður, mjög villt allt saman. Svo voru svæði fyrir birni, ljón, tígrisdýr. Allt lítil svæði sem var brunað í gegn um svo hratt að það var ekki hnetu sjéns í helvíti að taka mynd af blessuðu dýrunum. Rútan kemur aftur á bílastæði stútfull af svekktum ferðamönnum og kemur ekki í ljós, ferðin tók 20 mínútur til að keyra í gegn um 2/3 af heildarflatarmáli garðsins!
Þetta var nú ekki alveg nógu spennandi verður að segjast. Hins vegar var gaman að skoða restina af garðinum, við fórum á úlfaldabak og það var fíll sem lyfti okkur upp með rananum! Jey!
SkemmtigarðurVið skelltum okkur svo dag einn í skemmtigarð hér í borginni. Sá garður var svona eins og Hveragerði var í minningunni. Fullt af tækjum, en garðurinn var ekki það stór að við komumst hæglega í öll tækin á einum degi. Það var rússibani en voða lítill, ferðin tók ekki nema um 20 sek. En við gátum alveg skemmt okkur þarna í heilan dag og þegar fór að líða á var maginn á mannskapnum alveg kominn með nóg og fólk flandraði um hálf fölt í framan í leit að gosi til að róa magann. Svo að það var bara í það heila fínn garður.
-það var samt eitt skrítið í þessum garði. Fólk gat veitt gullfiska, litla marglita gullfiska. Ekki til að sleppa þeim, heldur til að eiga þá. Þetta var allt fremur sérstakt þar sem að gullfiskar sem eru um 3-5 cm á lengd hafa ekki mikið þol fyrir því að vera veiddir. Fólk þurfti nefnilega að húkka þá með tilheyrandi kippum sem þýddi að þeir 37 fiskar sem Elva veiddi voru að drepast í marga daga á eftir þar til eftir varð einn fiskur. Hann lifir enn blessaður.
Við skelltum okkur á The Beyoncé experience og það var nú heldur betur stuð. Ekki nóg með að komin var á sviðið glans og glamúr drottning R&B með rödd eins og engill heldur var hún með stórt band sem samanstóð af bara kvenfólki. Hún er svaðalega flott pía það verður bara að segjast. Hún hikaði ekki við það að hlaupa um sviðið á háum hælum syngjandi og dansandi. Þetta var sannarlega upplifun. Ef þið fáið tækifæri á að sjá hana á þessum túr þá mæli ég alveg með því.
ThelmaÞað er búin að vera svo mikill gestagangur að það nær engri átt. Hingað hafa komið foreldrar, systkini, vinir og vandamenn sem óneitanlega styttir dvöl okkar hér enn frekar. Thelma vinkona kom hingað í viku og það var stormað um borgina til að ná að gera og skoða sem flest á sem stystum tíma. Auðvitað voru flottu hótelbarirnir teknir með trompi. Og svo er Grétar mágur hans pabba að koma hingað í byrjun desember og stefnan er óneitanlega sett á að taka einn kaffi eða svo.
Daglega lífið
Kínverjar hlaupa ekki bara upp til handa og fóta til að þóknast okkur heldur gott betur. Til að mynda hefur það komið í ljós að hárgreiðslu og snyrtistofan sem við förum á í hverri viku réði sérstaklega manneskju inn sem gæti talað ensku við okkur, hún gerir ekkert annað alla daga allan daginn nema að bíða eftir því að við dettum inn í hárþvott eða neglur. Ekki nóg með það heldur var einnig keypt ný kaffivél. Við vorum sem sagt alltaf að koma inn með kaffi frá Starbucks og því fóru þau að efast um gæði þeirrar kaffis. Svo það var ekkert annað í stöðunni en að skvera kaffimálin svo við gætum nú drukkið kaffið þeirra yfir hárþvottinum.
Um daginn kom öryggisvörðurinn hlaupandi á eftir mér með andateppu því að hann vildi alls ekki að ég myndi geyma hjólið mitt fyrir utan húsið. Hjólageymslan er eini rétti staðurinn fyrir hjólin sko, annars gæti þeim hugsanlega, kannski, ef til vill verið stolið. Ekki það hjólageymslan er staðurinn þar sem hlutirnir gerast, við höldum það alla veganna því að þar eru fríir smokkar í tonnavís.
KuldiJá ég veit aumingja við í 16-20 stiga hitanum. EN það er svo svakalega kalt og húsin eru ekkert hituð. Málið er bara að hér er svo mikill raki að það skiptir ekki máli þótt það sé 18 stiga hiti, manni líður eins og maður sé í svona 5-7 stiga hita og rennandi blaut í þokkabót. Ég er farin að sofa í fullum klæðnaði og með húfu en er samt í svona klukkutíma að koma hita í mig og litlu tærnar mínar áður en ég næ að sofna. Eins og kannski sést hér á myndinni er um 18 stiga hiti og Allar erum við í 2-3 peysum með vettlinga í vösum.
En þetta stendur nú allt til bóta þar sem farið er að styttast í för okkar héðan yfir til Tælands.
Lokaorð
Við erum nú að vinna "hörðum" höndum að ritgerðum fyrir skólann. Þetta er nottlega svo svaðalegt metnaðarleysi sem einkennir þennan skóla að það hálfa væri nóg. Það eru engin verkefni og það verður bara próf í kínversku sem þýðir að við eigum að skila ritgerðum í hinum 4 fögunum sem við erum í. Hver ritgerð á að vera um 1000 orð sem er sko ekki upp í kött á nesi. Þetta eru einhverja 3-4 síður og maður nær ekki neinu flugi því þegar maður er búin með inngang og lokaorð þá er voða lítið eftir. Að því ógleymdu að ritgerðarefnin eru svo leiðinleg að það er skelfing. En nú þarf maður að fara að hysja upp um sig og læra kínverskuna af alvöru því það fer að styttast í próf.
Þar til næst ...
Athugasemdir
VEI VEI VEI! Ný skýrsla Það er svo gaman að geta fylgst með þér þarna í rassi, endilega "skýrslaðu" aftur innan mánaðar
Guðný Drífa Snæland, 13.11.2007 kl. 09:10
Jeiiiiiii ný færsla ! jamm þetta styttist óðum, innan við 6 vikur í sameiningu missóhópsins. Ég fór til Möttu síðustu helgi og við tjúttuðum af okkur rassgatið og hlakkar svo til hittingsins heima á Íslandi :D Hafið það nú samt ógó gaman það sem eftir er og njótið Thaílands í klessu...knúses and kisses !!
Steinunn (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 10:59
Jæja það var þá loksins!
Ætla að leyfa mér að efast um þessa síðustu setningu hjá þér "Þar til næst" en miðað við tíma sem líður milli blogga þá verðurðu eflaust komin heim áður en næsta blogg lítur dagsins ljós!
En... góð saga engu að síður - sérstaklega ánægð með hárgreiðslustofuna ykkar!
Halldóra (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 11:30
Hvaða vantrú er þetta Halldóra mín ... sástu ekki að ég á að vera að skrifa ritgerðir, líklegra er að ég hendi inn daglegu bloggi en að klára það helv..
annars eru 4 ný myndaalbúm búin að bætast í hópinn í takt við nýja bloggið
ástarkveðja Nínan í Kína
PS MISSÓ hittingur alveg málið ;)
Jónína Brynjólfsdóttir, 13.11.2007 kl. 15:19
skil þig svooo vel með kuldann! algjört helvíti mar... mæli ekki með beijing í desember :P ég held að þú hafir séð meira af nanjing á 2 dögum en ég í þá 4 mán sem ég bjó þar... hehe... eyddi mínum tíma mest á "diskótekinu" Scarlet! þið hafið ekki kíkt þangað??? mæli eindregið með því ef þið eigið leið þar hjá...
embla (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 20:49
Jeiiij! :-D ...as in það var mikið sæta mín! híhí.
EvAn (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 00:57
Hæ hæææ,
Loks að það heyrist e-ð í þér stelpa :D
En já brings back memories að sjá myndirnar af the very-not-so-much-wild-life park. Öll dýrin svo þunglynd að mar bjóst næstum við að sjá þau með snöru um hálsinn...
Og kuldinn, þ.e. rakinn. Maður getur ekki ímyndað sér að þetta væri svona kalt, alveg ótrúlegt að upplifa hvað svona kuldi er öðruvísi en gamla góða "þurra" frostið á Íslandi.
Reyni að ná á þig á skype um helgina, endilega sendu mail eða msn um hvaða tími dags er bestur uppá að ná á þig.
knus og kram til allra,
Indi
Indi (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 20:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.