Stefnir beint á ská .. á okkur

Já það er víst að stefna að okkur fellibylur, við eru nú ekkert að andast úr stressi enda hefur ekki verið reynt að henda okkur út af heimilum okkar hérna í stórborginni. Það hins vegar er búið að rigna SVO MIKIÐ í allan dag að ég hélt það gæti bara ekki rignt svona mikið. En við erum nú á efstu hæð svo að það þyrfti helv. mikið að flæða til að við myndum sökkva, annars erum við nú öll vel synd.

En hafið ekki áhyggjur, netið og síminn gæti dottið út en annars höldum við að fellibylurinn sé að fara vestanmegin við borgina og við erum nánast í miðbænum sem er alveg stein snar frá ströndinni (austanmeginn). Við komumst ekkert á neinar góðar heimasíður til að tjékka á neinu því að þær eru örugglega bannaðar af yfirvöldum, allaveganna komumst við ekki á BBC en CNN er að gera sig hérna.

Höfum ekki stórar áhyggjur af þessu, ætlum að panta okkur pizzu enda eftir kennslustund dagsins í kínversku getum við nú sagt góðann daginn, hvernig hefur þú það? en hvernig hefur hann það?

En bara lært að svara fínt, eða allt gott. Veit ekki hvernig maður myndi segja, bara svona skítsæmó!

skítsæmó rigningar-fellibylskveðja

 


mbl.is Fellibylur stefnir á Shanghai
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðasaga, taka eitt, fyrstu vikurnar í Kína!

Jæja, hvar á ég að byrja..

Hópurinn okkar samanstendur af 11 manns frá Bifröst, það erum sem sagt við missó svkísur, ég, Arna og Elva sem búum saman, Addó, Andri og Himmi búa saman, Ari, Ása og Berglind eru saman og Atli og Palli eru að leita sér að íbúð. Við erum hin öll bara í 3-4 mín fjarlægð frá hvort öðru. Af 11 manns er ég næstsíðust í stafrófinu.. þetta er magnað... þau eru 5 sem heita nöfnum sem byrja á A og þrjú af hópnum eru rauðhærð! Hehe enda magnaður hópur!

En við hópinn hefur eiginlega bæst ein kínversk sem var leigumiðlarinn okkar, talar fína ensku og fór með okkur til Peking. Hún heitir Amanda og er 21 árs, við erum að kenna henni ensku og hún er að kenna okkur kínverska menningu og kínversku, skemmst frá því að segja að henni gengur miklu betur að læra enskuna heldur en okkur að læra kínverskuna. En hún er yndisleg og þið sjáið hana væntanlega á mörgum myndum. Hún hafði aldrei komið út fyrir Shanghai svo að Peking ferðalagið var alveg jafn mikið ævintýri fyrir hana eins og fyrir okkur.

Við stöllur fluttum inn í húsnæði hér í Shanghai rétt áður en við fórum til Peking, íbúðin er í sömu götu og skólinn, bara 5 mín frá innganginum á kampus. Íbúðin okkar er um 95 fm á efstu hæð, þeirri þrettándu, 3 stór svefnherbergi. Við erum að borga á mánuði alls 4800 yuan (júan) fyrir íbúðina sem er um 40.800 ísl. sem er bara jafn dýrt og herbergið mitt sem ég var að leigja á Bifröst!!

Þetta eru nokkrar blokkir sem erum með svona torgi í miðjunni þar sem er að finna leikvöll og blómabeð og næsheit síðan er hlið til að komast inn að húsunum svona bílahlið þar sem eru öryggisverðir, mjög traustvekjandi og þeir eru alltaf brosandi og kátir.

Íbúðin er ágæt, ég set inn myndir af því seinna, en við tókum MASSA þrif hérna og ekki veitti af (kínverjar hafa aðra staðla varðandi þrif en við) svo fórum við í Ikea og keyptum fyrir um rúm 30 þúsund af dóti, matarstell, teppi, rúmföt handklæði og margt fleira. Við höfum einnig fengið okkur skjaldbökur, þær eru þrjár pínulitlar grænar eins og ég átti alltaf. Þegar við flytjum ætlum við að sleppa þeim í einhverja fallega tjörn hér nærri. Við vorum einnig að ráða æju (þrifakonu) og hún þrífur voða vel og er yndisleg en með enga enskukunnáttu, mjög þægilegt að hafa skúringargellu auk þess er hún ekki að taka nema 10 y á tímann (85. Kr). Maður verður að styrkja innlendan vinnumarkað sko.

Leigusalinn okkar er bara æði, sonur hans sér um allt og hann hljóp upp til handa og fóta og fékk internetið inn strax og keypti stóra viftu, örbylgjuofn og vatns-kæli/hitara (sem reyndar hitar bara vatnið og kælir ekkert, humm). Svo kíktu þeir feðgar við hér í fyrrakvöld og fannst allt svo fínt hjá okkur að nú á að hlaupa til og kaupa loftkælingu í stofuna og snúrur á svalirnar, annað er greinilega ekki hægt.. he he þeir eru yndislegir.

Peking:

Var æði, sjúklegur hiti um 33 gráður alla dagana og sól. Við fórum að skoða allt sem hægt var að skoða held ég. Torg hins himneska friðar er nú bara svona torg.. föttuðu ekki einu sinni að við hefðum verið þar fyrr en seinna um daginn, það tekur við af Forboðnu borginni. Við fórum á Kínamúrinn og það var magnað enda var sól og logn, við skoðuðum einnig Ming grafirnar þeas grafhýsi Ming keisarafjölskyldunnar, við skoðuðum einnig Forboðnu borgina.. sem kom í ljós að er gamla keisarahöllin sem búið var í þangað til keisaraveldið féll árið 1911, ég vissi það ekki. Einnig skoðuðum við Sumarhöll keisaranna og í ferðum okkar skoðuðum við einnig perluverksmiðju, silkiverksmiðju og Jade (aðal steinarnir hér í Kína) verksmiðju. Ég get sagt ykkur það að ég spotta feik silki, perlur og Jade alveg á nóinu sko. Einnig lærði maður hluti eins og ef þú ert að þvo ekta silki áttu ekki að nota þvottaefni heldur shampó! Það hjálpar við að halda litnum og þrífur allan skít úr, ég er búin að prufa! Svo fórum við einnig í dýragarðinn og ég sá pöndur, ógó sætar! Tók helling af myndum!! Bara fyrir Unni sys ;)

Íslenski sendiherrann, Gunnar Snorri Gunnarsson og Sendiráðið bauð okkur í heimsókn og út að borða sem var bara æði, þau voru svo æðisleg við okkur, spjölluðum og spjölluðum yfir kínverskum og öllara. Þau sögðu okkur helling um Kína og milliríkjasamstarfið og fullt af ganglegum hlutum. Við vorum mjög ánægð með viðtökurnar og mælum með því ef fólk er að þvælast í Peking að kíkja við í kaffi! Þau vilja ekki missa af neinum íslendingum á ferð um svæðið. Þau voru nýbúin að taka á móti hópi af fólki sem var að sækja börn sem þau voru að ættleiða.

Þau sögðu okkur helling eins og til dæmis að Óli grís og Dorrit eru að koma til Shanghai núna í október og Sendiráðið bauð okkur í móttöku- veislu þá með þeim. Þau eru að koma til að vera við setninguna á Special Olympics sem eru hér í Shanghai í næsta mánuði!!!        JEIJ !!       Við ætlum svo feitt að fara á leikana og styðja okkar fólk öskra eins og motherxxxxxx!! Vitum samt ekkert hvort einhver er að keppa eða þá í hverju en við hljótum að komast að því bráðum ;)

Nú .. skólinn byrjar á mánudaginn, þá erum við að fara að skrá okkur alla veganna.. það er svo sem ekkert stress þar á bæ.

Kínverjar:

Snillingar, heimsins mestu reddarar það er alveg á hreinu.. En karlmenn eru margir með langar neglur á litlu puttunum, eða litlu puttum og þumlum.. eða á öllum. Við sjáum þetta á leigubílstjórum oft.. og eftir miklar pælingar var okkur sagt af sendiráðsmönnum að það væru þrjár kenningar í gangi: 1) til að klóra sér í eyranu, 2) taka inn kókaín, eða neftóbak, 3) til að sýna að þeir vinni ekki erfiðisvinnu. Við teljum 3 möguleikann líklegastan. Kínverjar vilja að það sjáist á þeim út á götu hvað þeir standa fyrir til dæmis með því að vera með langar neglur því djobbið er svo auðvelt, vera eins hvít og mögulegt er til að sýna hreinlæti og að þau vinni inni en ekki eins og sveittir verkamenn.  Þess vegna er úrval af húðbleikivörum endalaust hér í hverri einustu búllu.

Um 35% allra fullorðinna reykja.

Hér í Kína búa 1200 milljónir manna.. eða sko gæti verið svona 200 milljónir í viðbót, þeir eru ekki vissir sko.. þeir eru ekkert að farast úr metnaði við að telja.

Klósettin eru meira eða minna stífluð hérna.. það er bara eitt að gera, æfa sig á drullusokknum svolítið! En það þýðir það líka að hér er ekkert hægt að henda klósettpappír í klóið!! Nobb hér notum við babywibes og svo er þeim hent í ruslið við hliðina á klósettinu.  Er ekki eins ógeðslegt og það hljómar. En allsstaðar sem maður fer er ruslafata við hliðina á klósettinu þar sem allir henda klósettpappírnum eftir notkun.  En maður er líka heppinn ef það er klósett því yfirleitt er bara svona keramic- skál- gat í gólfinu. Það er reyndar fínt, þetta er eins og að pissa útí móa, maður þarf ekki að hafa áhyggjur af því að koma ekki við setuna eða klósettið yfir höfuð. Þetta er ekki svo mikið mál, við erum öll búin að hetjast í að prufa svona gaura og gengur vel. ;)

Það er hægt að kaupa allt feik hérna og mikill markaður fyrir slíkt, meira segja þarf maður að passa sig að kaupa ekki feik sígarettur, snyrtivörur, föt augljóslega og allt sem ykkur dettur í hug. Það var meira að segja gaur fyrir utan Ikea að selja feik Ikea bangsa og kolla!

En þar til næst... við biðjum kærlega að heilsa snjókomunni!!!


PEKING OND I PEKING!!

Ju ju vid erum nuna i Peking sem er bara aedi, erum buin ad fara a Kinamurinn og erum ad fara a morgun i Forbodnuborgina, Temple of heaven og i Summer palace. Kemur ekki i ljos ad tad er verid ad smyrja Formann Mao og laga husid sem likid er i svo ad vid getum ekki skodad hans smurda 30 ara gamla lik!! Svekk

Annars kemur ferdasagan inn seinna, en hingad til get eg sagt ykkur tad ad kinverjar eru bara gladlynt og fint folk, enda allir ad koma ser i girinn fyrir Olympiuleikana. Tad snyst allt um Olympiuleikana her a bae og onnur hver auglysing er um tad, eda hverjir eru styrktaradilar. Oll hus eldri en 15 ara eru i vidgerd og husid vid hlidina a hotelinu okkar i Peking er unnid ad vidgerdum og endurbotum ALLAN SOLARHRINGINN! Ekkert djok, allan solarhringinn, ENDA fluttum vid okkur um set yfir i hinn hluta hotelsins tar sem tad var ekki svefnfridur!

PS. Peking ond, tjekk!!

PPS. her eru haustutsolur og allt sem var nu tegar odyrt i Kina er nu a 50% afslaetti, og hreint og klart eru flestar jolagjafir i hus!! Ledur virdist gefins her sem og silki, ta vitid tid hverju tid eigid von a :)

ast i poka sem ekki ma loka

Heildarsaga kemur fyrir naestu helgi, laerid allt um tad sem gerdist a Kinamurnum tar rukkad var fyrir ad fa ad taka myndir af hinni undurfogru og omotstaedilegu Ninu ykkar !!!


Tilkynningarskyldan tilkynnir:

Ní há (góðan daginn)

Við erum komin heilu og höldnu til Shanghai. Flugin gengu öll svona líka svakalega vel og hvergi vesen, í fluginu frá London til Hong Kong (12 tímar) þá var bara setið í 1/3 sætanna svo að ég náði mér í 4 sæta röð og svaf meira eða minna alla leiðina. Ég var samt svolítið huguð i Hong Kong, þá kom í ljós að mín var bara með 2 kveikjara, það gekk að sjálfsögðu ekki og þurfi ég að velja á milli hvorn ég vildi eiga. Svo vorum við sótt út á flugvöll af 2 gaurum sem skólinn sendi, fínir strákar sem fóru með okkur á hótelið og svona. Hótelið sem við erum á er bara svona svakalega fínt, það er bara 2 stjörnu en það er allt nýtt hérna og mjög flott.

Við erum sem sagt búin að vera rúma tvo sólarhringa í Shanghai og það sem við höfum náð að gera er að finna skólann, kaupa okkur símakort, hluti af hópnum er búinn að finna sér íbúð, við hin erum að bíða mánudags því það er svo lítið úrval núna af þessum íbúðum sem við höfum áhuga á. Í íbúðarleitar-leiðangri fórum við einnig á lítinn matarmarkað á götuhorni einu og þar var margt að finna, hægt var að kaupa flest sjávarfang lifandi t.d. margar tegundir froska, skjaldbökur, fiska, rækjur og margt fleira. Þetta var nú ekki kannski smart og snyrtilegur markaður en engu að síður mjög gaman að skoða hann.

Við fórum í gær út að borða á mjög fínum veitingastað við ánna þarf sem var útsýni yfir mestu ljósa-show-skýjakljúfana og Perluturninn til að mynda. Þar keyptum við okkur rauðvín, eðalsteikur og eftirrétt fyrir ca. 4000 á manninn sem er ekkert ódýrt hér í Kína, enda líka var mega flottur matur og mjög góður og klósettin þar voru með handsápu og handáburði til að nota eftir sápunni! Það telst alvöru hér á bæ! Þetta var klárlega snobbstaður enda nánast bara kanar þarna. Svo fórum við á japanskan bar sem var líka snobb, en mega flottur. Þegar við komum inn var risastórt fiskabúr með 3 hákörlum í og inni á barnum var bara heill veggur sem var fiskabúr. Enduðum svo á snobb klúbb þar sem svona ¼ fólksins inni voru starfsmenn sem þurrkuðu af borðum, sópuðu og tóku tóm glös af borðunum. Þar var barþjónn sem hefur greinilega horft einum of oft á Kokteil, myndina með Tom Cruiz. Hann var æði, kveikti í barborðinu og henti flöskunum upp í loftið eins og ég veit ekki hvað, það var æðisleg tónlist og barþjónninn hélt alveg uppi stuðinu fyrir allan peninginn, þangað verður farið aftur! en málið er með þessa snobbstaði sem við fórum á að við vorum að fá kokteilana á um 650-800 kjall, sem er bara ekkert ódýrt, en þetta eru líka mega flottir staðir.

Í dag fórum við síðan í raftækjamollið, það er eitt af mörgum mollum við Hong Kong plaza og gvuð minn geðveikin. Þetta voru bara endalaust af básum, flestir með það sama og svo labbaði maður bara á milli og spurði hvað hlutirnir kostuðu og það var misjafn, gat munað helling á verði á sömu vöru bara milli bása. En ef maður sýndi áhuga þá var nú líka bara vasareiknirinn kominn í hendurnar á manni og þeir báðu um móttilboð! Ég verslaði nú ekki neitt, enda liggur ekkert á, en það er gott að skoða þetta og vita hvernig eigi að fá þessa sölumenn til að lækka prísinn niður í núll og nix, múahahaha. Svo er bara afslöppun í kvöld.

Þessir fyrstu dagar hafa verið æði samt. Þetta er stórborg, STÓR-borg og það er vond lykt, mengun og mikið subbulegt, en mikið sem er smart og flott, skýjakljúfar út um allt sem eru flottir og með þvílíkum ljósa-showum á kvöldin. En það eru flestir hjálpsamir og mikið að gera hér og skoða. Það er að sjálfsögðu hér og þar betlarar sem eru ágengir en við höfum bara hunsað þá. Hér er fólkið greinilega að undirbúa sig fyrir Olympíuleikana sem eru eftir nákvæmlega ár. Mörgum stöðum sem við förum á er mikill metnaður að hafa allt í tipp topp fyrir túristana, sem okkur líkar vel við, sem og metnaður þeirra til að reyna að tala ensku þótt að flestir séu nánast alveg ósjálfbjarga á tungumálinu. Við reynum að koma til móts við þau með alls konar leikrænum tilburðum og gengur það svona stundum, já svona stundum.

Ég fór í búð í gær til að kaupa mér : shampó, hárnæringu og hársprey. Ég reyndi að eiga samskipti við konu sem var að vinna þar og var að spyrja hvort að túban sem ég hélt á í hendinni og á stóð: Intense moister, væri hárnæring, hún hélt það nú! En ég keypti nú til vara aðra túbu sem var annaðhvort krem eða hárnæring, svona 50/50 líkur. Fann síðan hárlakk og allt klárt. Kem á hótelið í gærkveldi, fer í sturtu og kemst að því að jú shampóið var shampó (enda stóð það á brúsanum) og síðan var bara að komast að því hvort mér hefði tekst að kaupa hárnæringu. Þegar ég fór að nota það sem mér var selt sem hárnæring kom fljótt í ljós að um var að ræða krem, en sem betur fer sá ég það áður en það fór í hárið, nú og það sem hefði getað verið krem eða hárnæring var svo heppilega hárnæring. ÆÐI
Vakna í morgun, bleyti á mér hárið og tek til við hárlakkið fína, byrja að sprauta og laga hárið til, en það harðnaði ekkert, ég fór að finna að hendurnar á mér voru allar eins og í olíu hreinlega. Þótti minni þetta heldur skrítið og þeim sem fylgdust með viðburðinum. Við vorum nokkur hérna og enginn vissi eiginlega hvað væri í gangi! Ég tók mig til og fór að reyna að finna eitthvað á ensku á brúsanum sem loksins tókst .... og viti menn... þetta er hárnæring með glans!! Svona líka helvíti fínt .. stelpurnar eru búnar að dáðst að hárinu á mér í allan dag og ætla beint að kaupa sér svona á morgun!

Hér er svona 30 stiga hiti og svakalega rakt, það er eins og það sé alltaf bara rigning það er svo rakt, við höfum ekki séð til sólar, en í gær fannst okkur hún vera að reyna að troða sér í gegn um mengunina, við svona sáum smá skugga af okkur. Annars er ég að vinna keppnina!! jebb jebb jebb, það held ég nú.. komin með 4 flugnabit og ég er enn bara ein í keppninni! Vafasöm keppni kannski, en fyrst að ég er með flest bitin og þau einu þá gerði ég þetta bara að keppni og ég er að vinna!

Ævintýri á hverjum degi!!

hilsen

ps. var að setja inn myndir, en þær koma ekki í réttri röð, ohh well

 


komin til Shanghai

Vid erum komin, ferdn gekk faranlega vel og vid erum ad tjekka okkur inn a hotelid....

aetla ad sofa og hendi svo inn vid fyrsta taekifaeri faerslu... eg virdist geta fengid sms en ekki sent.. veit ekki af hverju en ok

seinna min kaeru!!


Guð skapaði heiminn, svona er þetta bara

Góðan daginn góðir hálskirtlar

Ég sit núna heima hjá Nínu með sting í maganum og horfi á ferðatöskuna og tek svona panik-köst  yfir því að  ég finni ekki passann.. jú hann er þarna, svo finn ég ekki flugáætlunina og fer að leita og leita.. hún er á sínum stað. Ég er sem sagt að eyða tímanum í það að hafa áhyggjur af því sem ég þarf ekki að hafa áhyggjur af.

Það er búið að vera mikið stuð hér í Kóngsins Köben.  Við fórum aðeins að versla og var afraksturinn 2 kjólar, 2 bolir og 1 par af skóm (sem eru ÆÐI btw), ný klipping og permanett. Á síðasta laugardag var götuhátíð hér í götunni hennar Nínu og mikið um dýrðir, götumarkaður, hoppukastalar, ponyhestar og ég veit ekki hvað. Það var líka Gay Pride og því svakalega mikið af fólki að djamma og fórum við í hommsu-náttfatapartý hjá Róberti á föstudaginn og svo var partý hér hjá Nínu á laugardag og sannarlega kíkt út á pöbbana.

Annars hefur þetta verið rólegt, ég hitti Egill og hann var mjög hress, hann er að koma heim um jólin í heimsókn og er búinn að panta að fá að vera með í áramótapartýi. Ég hitti líka Beggu vinkonu, Unnur mamma hennar bauð mér í mat í gær. Við vorum allar 3 að vinna saman í Byggt og Búið á sínum tíma og því var mikið hlegið og rifjað upp gamlar góðar minningar.

Breki hefur verið hress eins og vanalega, hann tók smá kast hér í gær og vildi ekki fara að sofa svo að móðir hans var eitthvað að ræða við hann og segir sem svo: af hverju læturðu svona? ..
.. Svarið var á þá leið: mamma ég veit það ekkert, Guð skapaði heiminn og svona er þetta bara, ég stjórna þessu ekki...

-óborganlegur-

Annars var ég næstum hlaupin niður á strikinu í gær, þar voru 3 fangar að hlaupa undan laganna vörðum, allir keðjaðir saman og stefndu beint á mig.. ég rétt náði að forða mér.. ég veit ekki hvað fangar hefðu átt að vera að gera á strikinu en líkum hefur verið leitt að því að þetta hafi verið einhverskonar götuleikhús eða eitthvað. En þegar þeir allir 3 keðjaðir saman stefndu á mig, þá stökk ég í burtu enda ekki líkleg til að taka sjénsinn á því að þetta væri kannski alvöru eða ekki.

En á morgun fer ég út á Kastup og tek síðan eftirfarandi millilendingar: Köben-London-Hong Kong-Shanghai. Áætluð lending er í Shanghai á fimmtudag kl 20 að staðartíma, þá er klukkan hádegi heima á Íslandi og ég ætla að reyna að henda inn færslu hér til að láta ykkur vita að ég sé komin og allt sé í gúddí, ef ég kemst einhversstaðar á netið það er að segja.

En ég kveð að sinni... vona að þið hafið það gott ;)


Ps. Nokkrar myndir komnar í safnið, bæði frá drykk á Oliver áður en ég fór og líka frá Köben.


Komin til Köben

Sit með öllara og hef það næs í Köben, gekk bara vel flugið og ekkert vesen. Það var ekki laust við að ég fékki smá sting í magann við að kveðja mömmu, pabba og Halldóru, þetta verður skrítið að sjá ykkur ekki næstu mánuðina, en þeir verða væntanlega fljótir að líða.

Annars verður hér öl og stuð fram yfir helgi og fólk streymir til Köben til að hitta píuna loks þegar maður kemur á meginlandið.

Það verður samkynheigt stolt (gay pride) á morgun hér í kongsins og mikið um að vera, Fields (verslunarmiðstöðin) á sunnudaginn og hef grun um að debetkortið fái að kenna á því. Annars eru allir hér í Köb hressir og þrykja kveðju á liðið.

Hress í Köben, bið að heilsa í bili!!


Föstudagur til fjár.. eða Köben kannski

Næstkomandi föstudag hefst ferð mín um heiminn þegar fyrsti áfangi í ferðalagi mínu hefst. Ég flýg til Köben og verð þar í nokkra daga áður en ég fer til : London-Hong Kong-Shanghai.

Ég mun dvelja hjá henni Nínu minni og Breka og verður væntanlega farið í einhverjar ævintýraferðir í HM og á barinn, sjáum svo hvað Breki nær að draga mig í bullið, kannski verður það dýragarður eða tívolíið, þetta kemur í ljós og ég mun setja inn nokkrar línur um Köbendvöl mína.

En ég vil óska systur minni, Dóru rokk hjartanlega til hamningju með afmælið, pían er svo gott sem 25 ára í dag, geri aðrir betur!

 systur

Í gærkveldi var því haldin gríðarveisla á Laugaveginum þar sem allt selebið lét sjá sig og talaði gula pressan um það í dag að veislustjórar hefðu verið glæsilegar og skreytingarnefnd staðið sig svo sannarlega í stykkinu, rætt var um að vissulega hefði creme de la creme af íslensku þotuliði hefði skemmt sér fram eftir nóttu í þessu eina besta partýi ársins.

En til hamingju með afmælið sys!!

 

 

 


Shanghæ eftir ten minus 22 daga

Kæru vinir

Nú er að líða að því að kjellan skelli sér í skiptinám til Shanghæ. Ég fer núna 24. ágúst til Köben og verð þar að spássera með öl í annarri og HM poka í hinni fram til 29. ágúst þegar ég flýg um hálfan heiminn með smá stoppi í Hong Kong.

Shanghæ Kort

Ég verð sem sagt í 4 mánuði í Shanghæ háskólanum við nám í kínversku, kínveskri menningu og asískum lögum (og eitthvað fleira sem ég man bara ekki).

Það er nú svo sem ekkert mikið um það að segja í bili en ykkur til fróðleiks hef ég nú fengið endalaust magn af sprautum til að forða mér frá mest öllu nema fluglaflensunni. Japanska heilabólgan á ekki sjens í mig, það er alveg klárt.

Ég stefni nú að því að halda úti góðu bloggi meðan á dvöl minni í Kína stendur og fræða ykkur um ævintýri okkar í hópnum. Við erum jú 11 sem erum að fara út á vegum Háskólans á Bifröst og því reiknum við með minniháttar daglegum ævintýrum í það minnsta.

Það verða keypt hjól og við ætlum að skoða okkur um á tvem jafn kringlóttum.

En í öðrum fréttum er það helst á klaufinn ég datt á föstudaginn, frekar undarlegt allt saman, en önnur löppin á mér er sem sagt eins og fínasta Picaso verk, blá og marin frá klálfa og niður að tám, maður þakkar fyrir að hafa ekki brotið á sér löppina og þurfa að fara í gipsi til Kína!

En nú fer niðurtalning að hefjast og ég ætla á næstu dögum að koma mér aftur í blogg-gírinn og hita upp fyrir daglegar færslur frá Kína

Kveðja í bili - soðin ýsa með mikið af hömsum er á óskalistanum fyrir kvöldmatinn, harðfisk í desert ;)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband